Tuesday, October 09, 2012

 

Langafaskott.

Litla langafastelpan mín fékk nafnið Álfrún Klara á sunnudaginn var.Bæði nöfnin að mínu skapi. Klörunafnið alltaf verið mér afar kært af skiljanlegum ástæðum. Sumir trúa á að ákveðnum nöfnum fylgi máttur. Ég gæti best trúað að það væri rétt og vona að litla krúttbomban fái marga góða eiginleika frá móður minni sælu. Það var mikið fjölmenni við nafngjöf litlu stúlkunnar. Foreldrar og ýmsir vinir þeirra, ættingjar þeirra í báðar ættir, 2 ömmur, 2 afar, skáafi og skáamma, 4 langömmur og svo Hösmagi gamli langafi. Þetta var hátíðisdagur góður og Sölvi minn varð 34 ára. Finnst nú ekki langt síðan ég hélt honum nýfæddum í fangi mér og alltaf herðir gangrimlahjólið á sér. Enn er tíðin ágæt og engin merki um snjó á bráðanæstunni. Tek alltaf mark á Páli Bergþórssyni hvað veður varðar. Hann spáir fremur mildum vetri enda séum við nú á hlýindaskeiði. Síðasta sumar var alveg sérstaklega gott og hitastigið hér á Selfossi var oft 15-20 gráður vikum saman. Kolbakur lét sig gjarnan hverfa snemma morguns og gaf sér varla tíma til að éta. Birtist svo seint á kvöldin og tók þá rösklega til matarins. Nér er hér hið mildasta veður og hitinn nærri 10 gráður en myrkrið er svart. Eftir 11 daga er skoðanakönnun um það sem kallað er " ný stjórnarskrá". Andleg afurð nokkurra frekjudalla sem eiga það mest sameiginlegt að hafa enga menntun á sviði stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar. Allt er þetta ferli sorglegra en tárum taki.Og það versta er að margir telja að þetta muni skila þjóðinni einhverju. Þetta fólk gæti alveg eins bannað siðblindu á stjórnarskránni. Þú breytir ekki gangi himintúngla með því að stilla úrið þitt. Ég vona reyndar að nógu margir átti sig á þessu húmbúkki og láti þessa skoðanakönnun lönd og leið. Það er grátlegt að búið sé að eyða mörghundruð milljónum í þessa sýndarmennsku og það á meðan ekki er hægt að endurnýja brýnustu tækin á Lsp. Ég held að 1. greinin gæti alveg eins hljóðað svo: Ísland er bananalýðveldi með óstjórn. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að þetta "frumvarp" mun aldrei verða að íslenkri stjórnarskrá. Við Kolbakur sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Thursday, September 20, 2012

 

Endurlífgun.

Einhvernveginn tókst mér að komast hér inn á mína gömlu slóð. Þeir voru dagar sem ég ritaði hugleiðingar mínar hér svona 2-3 í viku og sumir vinir mínir áttu það til að kvarta ef lengra leið á milli. En allt er í heiminum hverfult. Ég fór að blogga á mogganum og það dró úr ritgleðinni hér. Svo tók facebook við og þá nánast lognuðust bæði bloggin mín útaf. Þó fésbókin sé um margt ágæt er hún þó allt öðruvísi en bloggið. Bloggið mitt er eintal sálarinnar. Var fastur og þéttur þáttur í tilverunni og ég hef oft hugsað mér að byrja aftur. Síðasti pistillinn var skrifaður fyrir 20 mánuðum og var eini pistill ársins 2011. Nú er langt liðið á árið 2012 og mikið vatn til sjávar runnið síðan síðast.Árið 2012 hefur um flest verið mér gott og skemmtilegt. Heilsa mín ágæt og ég vona að ég sé laus við krabbameinið. Fer í tékk á mánudaginn kemur og hitti svo krabbameinslækni á fimmtudaginn eftir myndatökuna.Stærsti atburður ársins var 5. ágúst í sumar er ég varð langafi. Ákaflega ljúf upplifun og ég er stórhrifinn af þessum nýja titli. Lambakóngurinn minn, Siggi Þráinn varð pabbi þennan dag og móðirin heitir Anna Bergmann Björnsdóttir. Ég heimsótti litlu stúlkuna og foreldra hennar 2. september á notalega heimilið þeirra í Grjótaþorpinu og upplifði aftur tilfinninguna um hvað lítil börn eru nú óskaplega lítil en gefa þó mikið af sér. Það á að gefa stúlkunni nafn þann 7. október og ég hlakka mikið til þeirrar stundar. Ég byrjaði veiðivertíðina 28. júní og fékk fyrsta laxinn minn 30. júní. Bætti svo 16 löxum við í júlí og 7 löxum í ágúst. Veðrið yfirleitt frábært og ég mun lengi muna þetta dásamlega sumar. Við feðgar og langfeðgar vorum svo í Veiðivötnum 16.-18. ágúst og það var líka indæl ferð þó við veiddum minna en síðustu sumur. Veiði lýkur svo í Ölfusá á mánudaginn en aðeins 2 laxar hafa veiðst í ánni í september. Heildarveiðin 271 lax sem er ágætt miðað við fremur slaka veiði almennt á landinu í sumar. Kolbakur minn hefur þrifist vel hjá fóstra sínum. Þrifinn og skemmtilegur köttur sem veitir mér ánægju og mikinn félagsskap. Lífið gengur sem sagt sinn gang og Hösmagi gamli er nokkuð sáttur við hlutina þó árin færist yfir. Nú er að þrauka af veturinn og taka svo á móti nýjum ævintýrum á nýju ári. Við Kolbakur sendum öllum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 18, 2012

 

Endurlífgun.


Tuesday, January 11, 2011

 

2011.

Nýtt ár og nýr áratugur að auki eru gengin í garð.Hjá mér byrjaði þetta með guðsvelsignaðri pest á gamlárskvöld. Er að verða nokkuð góður eftir sýklalyf og inniveru. Annars gengur lífið sinn gang að venju. Við sunnlendingar að mestu leyti lausir við snjó og tíðin almennt ekki til að kvarta yfir. Það er rólegt yfir öllu hér í Ástjörn. Sjónvarpsdagskráin vonlaus eins og flesta aðra daga. Endalaust bandarískt rusl í boði. Yfirgengilegt metnaðarleysi á þeim bænum. Þetta versnaði um allan helming þegar ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Allir nauðbeygðir til að greiða kostnaðinn hjá þessari leiðindastofnun. Mér kæmi ekki á óvart þó kötturinn fengi bráðum rukkun líka. Honum gæti sem best orðið á að kíkja á skjáinn.
Við höfum það annars ágætt saman, ég og Kolbakur minn. Ósköp ljúfur kisi sem vill helst halda sig nærri fóstra sínum eins og Kimi áður. Eins og ég hef svo oft sagt hér áður er enginn einn sem hefur lítið dýr hjá sér. Það er líka gott fyrir einbúa að þurfa að hugsa um eitthvað. Gera ráðstafanir ef farið er af bæ í lengri tíma. Það er reyndar orðið sjaldgæft í seinni tíð nema Veiðivatnatúr einu sinni á ári.
Þetta ár leggst bara nokkuð vel í mig. Verð löggilt gamalmenni í mars. Kemst þá á próventu hjá Steingrími J. Skerta, vegna nokkurra króna úr lífeyrissjóði. Norræna velferðarstjórnin hefur fryst tekjur öryrkja og gamalmenna ásamt því að miða persónuafslátt við sömu krónutölu og áður. Vísitalan má leika lausum hala á sumum sviðum en ekki öðrum. Allt annað hækkar. Bifreiðagjöld, bensínskattar, brennivín, tóbak og nefndu það bara. Allt er réttlætt með því að verið sé að taka til eftir íhald og framsókn. Það er m.a.s. eins og ráðherrar samfylkingarinnar hafi gleymt því að þeir sátu sjálfir í hrunstjórninni. Þetta er þó engin tiltekt. Sama spillta stjórnsýslan og bankakerfið enn gegnsýrt af spillingu og eiginhagsmunum. Vonandi líður ekki of langur tími uns kosið verður. Þá fær fjórflokkurinn þungan skell. Sem hann óttast nú meira en allt annað. Þá verður Steingrímur að draga gamla blágræna Volvóinn fram á ný. Enginn svartur ráðherrajeppi með bílstjóra og næs. Þetta kemur allt í ljós síðar.
Kolbakur kúrir hér á borðinu hjá mér. Tiltölulega spakur. Líklega í draumalandinu því lappirnar hreyfast með taktföstum hætti. Við sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.














að verða

Wednesday, December 22, 2010

 

Desemberpistill.

Óralangt síðan síðast. Það er eins og facebokk síðan hafi yfirtekið alla mína ritgleði. Þessi síða er þó aðgengileg enn og kannski ágætt að ljúka árinu með einum jólapistli. Klukkan er nú að ganga sex á Þorláksmessumorgni og pækillærið góða var að fara í ofninn. Það hefur margt á dagana drifið frá síðasta pistli. Gott og illt eins gengur í lífinu. Kimi minn er nú kominn á nýjar veiðilendur og það var mér afar þungbært. Þetta yndislega dýr kvaddi þennan heim þann 4. október. Skyndilega, eins og þegar hann kom inn í líf mitt þann 1. júlí 2005. Þau voru erfið sporin er ég fór og gróf hann í landi bróður míns morguninn eftir. Tómleiki og depurð. Maður stendur frammi fyrir staðreyndum og lífið heldur áfram. Það eru ekki ný sannindi fyrir mér. Þegar ég greindist með krabbameinið fyrir rúmu ári hugsaði ég til kisa míns. Hvað um hann yrði ef eg færi frá honum. Hann var mér alla tíð félagi og vinur. Ég hugsaði minn gang og mánuði seinna sótti ég annan kött suður í Hafnarfjörð. Ungur fressköttur fæddur 3. júní. Svartur að mestu með smá hvítan blett á bringu og kvið. Hann hefur aðlagast vel hér og framhaldið lofar góðu. Ég gaf honum nafnið Kolbakur og hann ber það með sóma.
Það má segja að barátta mín við meinið hafi gengið frábærlega og eins og nú horfir er ég á beinu brautinni. Hress og glaður yfir árangrinum. Lífslöngunin, baráttuviljinn og hjálpin frá góðum læknum og hjúkrunarfólki hafa fleytt mér yfir erfiðan tíma. Þetta ár hefur því að mörgu leyti verið mér ágætt þó það skilji eftir sig sorgina eftir Kimi. Allar góðu minningarnar um hann á ég áfram þó leiðir okkar hafi skilið um sinn.
Það voru vetrarsólstöður í fyrradag. Það eru alltaf tímamót desembermánaðar og mér mikils virði. Ég hef margsinnis minnst á gangrimlahjólið sem alltaf snýst með sama hætti. Kannski herðir það aðeins á sér með hverju árinu sem líður. Allt er afstætt. Mest er um vert að halda ró sinni hvað sem á dynur. Þessi eilífu viðmið sem mér hafa alltaf verið mikilvæg. Í gleði og sorg. Eftir hin válegu tíðindi þann 30. nóvember í fyrra hugaði ég ráð mitt. Kveikti mér í vindli og hugsaði. Kannski að ég ætti að fá mér í glas og slá þessu uppí kæruleysi. Ég sá fljótlega að nú þyrfti ég á öllum mínum mínum kröftum að halda. Lét glasið eiga sig og hætti að reykja þann 4. desember. Hvort tveggja skynsamlegt og örugglega hjálpað í baráttunni. Ég er líka sannfærður um að ég muni ekki byrja aftur að reykja. Ávinningurinn af því er stórkostlegur á svo mörgum sviðum að það flökrar ekki að mér að fá mér smók. Þó ég láti mig stundum dreyma og hlutir reki tímabundið á reiðanum þá hef ég oftast nægilega staðfestu til að komast fram úr vanda sem ég stend frammi fyrir. Það er gott og mikilvægt í hverri baráttu. Kolbakur snuddar nú hér á borðinu og heimtar athygli. Ekki alveg ókunnugt frá liðnum árum. Brakandi malið gefur til kynna að hann sé sáttur. Það gefur mér heilmikið. Við sendum ykkur bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Tuesday, September 21, 2010

 

Haust.

Það er komið haust og jafndægur á morgun þann 23. Veðrið er indælt, logn og hitinn 2.8 gráður. Ævintýraleg birta af fullu tungli. Ölfusá hálfdraugaleg að sjá í tunglsljósinu. Veiði þar lauk í fyrradag og varð heldur endaslepp eftir feykigóða byrjun. Mikil sólbráð og hiti, ásamt öskugráma stórspillti veiðinni. Samt veiddust 283 laxar og allnokkuð af góðum sjóbirtingi. Ég er sæll með mína 18 laxa og 2 sjóbirtinga. Mín besta veiði í mörg ár og að auki var Veiðivatnatúrinn ógleymanlegur. Nú hefst aftur nýr meðgöngutími. Ég hef gefist upp á Tangavatni. Var þar á laugardaginn. Að sögn hafði fiski verið sleppt þar daginn áður. Hann var samt hvergi sjáanlegur. Vatnið kólnaði eftir jarðskjálftana árið 2000 og kannski hefur jörðin gliðnað þannig að fiskurinn kemst í fylgsni þar sem útilokað er að komast að honum. Mér finnst þetta hálfsorglegt, því ég á margar skemmtilegar minningar frá þessum stað. Það er lítið skemmtilegt að leggja á sig ferðalög, borga veiðileyfi og svo er fiskurinn í felum. Nú er bara að þrauka og bíða eftir nýjum æfintýrum næsta sumar.Mánuður í formlegan vetur og lífið gengur bara sinn gang. Ágæt heilsa og ég hugsa lítið um meinið í brjósti mér. Ég fer í rörið á mánudaginn og svo í viðtal í október. Kvíði engu og vona það besta eins og jafnan fyrr. Það hefur löngum reynst mér heilladrjúgt.
Kisi liggur nú hér á borðinu og malar. Óskaplega sæll eftir að ég fann eina af hinum fornu flískúlum í gær. Dró ísskápinn fram til afísunar og þar leyndist ein undir. Svo var ég svolítið montinn með mig að hafa haft mig í þetta. Nú er skápurinn eins og þegar hann kom úr búðinni. Einbúinn verður að bjarga sér sjálfur með allt á heimilinu. Það gengur furðuvel á þessum bæ. Sem sagt allt gott héðan og við Kimi sendum kveðjur. Ykkar Hösmagi.

Monday, August 16, 2010

 

Langt blogghlé.

Ég hef vanrækt þessa ágætu síðu lengi. Eiginlega skömm að því.Stundum gleymir maður börnunum sínum og það er að sjálfsögðu miður. Síðan síðasti pistill var ritaður hefur margt á dagana drifið.Og sem betur fer flest jákvætt. Heilsan er góð eins sumarið hefur einnig verið. Ég fór í segulómun 5. júlí og hitti svo krabbameinslækninn þann 13.Þá hafði æxlið enn minnkað og ég fer svo næst í ómun þann 27. september. Ég get ekki beðið um meira að svo stöddu. Líðanin ágæt og verkjatöflurnar eru bara í skápnum. Ég hef sannarlega unað glaður við mitt í sumar. Búinn að veiða 16 laxa úr Ölfusá og kom úr geysivelheppnaðri Veiðivatnaför á fimtudaginn var.Töfrar Veiðivatnanna óbreyttir.Við feðgar og langfeðgar veiddum óhemju vel. Slatta af bleikju og 141 urriða.Veðrið var líka dásamlegt svo það var ekkert sem skyggði á lífið og tilveruna.Held að við höfum allir komið heim endurnýjaðir á sál og líkama. Ég hef oft sagt það áður að rólyndi hugans er ofar öllu hjá mér. Það hjálpar líka til að halda hinni líkamlegu heilsu í lagi. Ég finn líka nálægð þess góða í kringum mig. Verndarenglarnir hugsa um sína. Og samvistirnar við kisa minn eru líka alltaf ljúfar.Hann varhúsvörður hér í 2 sólarhringa í Veiðivatnatúrnum. Ósköp kátur þegar fóstri birtist á ný. Lítið dýr á heimili getur gefið einstæðingi heilmikið. Það er sem sé allt gott af Hösmaga gamla. Nokkrir veiðidagar eftir enn þó blóminn úr sumrinu sé liðinn. Að áliðnum slætti er nærri aldimmt á kvöldin. Ég kvíði þó ekki haustinu eða komandi vetri. Gangrimlahjólið snýst með gamalkunnum hætti. Ég ætla að þegja um pólitíkina í þetta sinn. Lofa þó engu um framhaldið. Líður reyndar orðið langbest þegar hún er ekki á dagskrá. Við Kimi biðjum að heilsa ykkur öllum, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online